8.10.2008 | 20:58
Jákvæð hugsun í mótlæti
Það er ánægjulegt að lesa á heimasíðu bridge.is að sonur minn er að gera það gott með liði sínu á ólympíuleikunum í bridge í Bejing í Kína. Þegar 14 umferðir af 17 eru búnar eru þau í 10. sæti af 74. Þau keppa fyrir 28 ára og yngri en Jón Baldurs og co. keppa í opna flokknum, það fóru sem sagt tvö lið frá Íslandi á þessa heimsleika, eitt í hvorum flokki fyrir hönd Íslands. Dóttir mín er í háskólanámi í Kína í alþjóðaviðskiptum svo það er dálítið undarleg tilfinning að bæði börnin séu í Kína núna, ekki hefði mig grunað þetta fyrir um ári síðan.
Ég ákvað í kjölfar þessa ólguástands í efnahagsmálum þjóðarinnar og reyndar heimsins alls og umferðarslyss sem ég lenti í í gærkvöldi þar sem bíllinn minn gjöreyðilagðist og ég slapp ótrúlega vel m.v. aðstæður, að hugsa bara jákvætt og senda frá mér jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir. Ég er sem sagt heima hálfvönkuð, toguð og teygð og kemst ekki í vinnu og reyni að tileinka mér að hugsa einungis eins og Pollýanna í samnefndri bók. Er ekki eina leiðin til að lifa þetta af að brosa bara út í annað þegar maður sér íbúðalánið hækka takmarkalaust milli greiðsludaga?
Athugasemdir
Þetta er satt hjá þér. Jákvænin verður að vera til staðar enda er lítið sem við getum gert þó við rífum kjaft á milli.
Góðan bata eftir bílslysið. Til hamingju með börnin þín í Kína. :-)
Vilborg Traustadóttir, 14.10.2008 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.